Samantha kemur til Breiðabliks á láni út tímabilið. Hún er þegar komin með leikheimild með liðinu.
Samantha kom til FHL fyrir tímabilið og hefur skorað grimmt fyrir liðið. Hún er næstmarkahæst í Lengjudeildinni með fimmtán mörk en markahæst er fyrrverandi liðsfélagi hennar, Emma Hawkins. Hún er farin til Damaiense í Portúgal sem Þorlákur Árnason stýrir. FHL hefur því misst leikmennina sem hafa skorað samtals 39 af 55 mörkum liðsins í Lengjudeildinni. Austfirðingar hafa þegar tryggt sér sæti í Bestu deildinni á næsta tímabili.
Breiðablik er í 2. sæti Bestu deildarinnar, einu stigi á eftir toppliði Vals. Blikar og Valskonur mætast einmitt í úrslitaleik Mjólkurbikarsins á föstudaginn.
Auk Samönthu hefur Breiðablik fengið landsliðskonuna Kristínu Dís Árnadóttir frá Brøndby. Anna Nurmi fór hins vegar til FH.