Pochettino hefur verið atvinnulaus frá því að hann komst að samkomulagi um starfslok hjá enska liðinu Chelsea í vor. Hann stýrði liðinu á síðustu leiktíð en árangurinn þótti ekki viðunandi. Áður hefur Pochettino þjálfað Espanyol á Spáni, Southampton og Tottenham á Englandi og PSG í Frakklandi.
Hann er á meðal þeirra sem hafa verið orðaðir við lausa þjálfara stöðu enska landsliðsins í kjölfar þess að Gareth Southgate sagði upp eftir Evrópumótið í sumar.
Nú er ljóst að hann er á leið vestur um haf og á að stýra Bandaríkjunum á HM 2026 á heimavelli. HM verður haldið í Bandaríkjunum, Kanada og Mexíkó. Um er að ræða fyrsta heimsmeistaramótið sem fram fer í Bandaríkjunum síðan 1994.
Árangur bandaríska liðsins hefur ekki verið góður síðustu misseri. Þjálfaranum Gregg Berhalter var sagt upp störfum í kjölfar þess að Bandaríkin féllu úr leik í riðlakeppninni í Suður-Ameríkukeppninni, Copa America, sem haldin var í Bandaríkjunum í sumar.