Tæplega tvö þúsund manns hafa þegar skrifað undir.
Björn Davíðsson er ábyrgðarmaður fyrir undirskriftalistanum. Hann lýsir sér sem bernskuvini Helga Magnúsar og segist blöskra framgang ríkissaksóknara. Hann segir hana beita Helga þöggun með valdi.
„Það eru kannski ekki allir sammála um hvernig menn mega tjá sig um opinber eða persónuleg málefni eins og bernskuvinur minn Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari hefur gert og sætir nú ódrengilegri framkomu vinnufélaga síns til margra ára,“ skrifar hann á Facebook.
„Styðjum vararíkissaksóknara!“
„Við undirrituð skorum á dómsmálaráðherra að hafna erindi Sigríðar J Friðjónsdóttur ríkissaksóknara um að veita Helga Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknara lausn um stundarsakir,“ segir í lýsingu undirskriftalistans sem ber yfirskriftina: „Styðjum vararíkissaksóknara!“
Helgi hefur lýst því að hann upplifi sig hafa verið stunginn í bakið og hefur krafist þess að dómsmálaráðherra afturkalli áminningu sem hann hlaut frá Sigríði Friðjónsdóttur ríkissaksóknara.
Vísir hefur fjallað ítarlega um mál Helga Magnúsar í gegnum tíðina og meðal annars tekið saman ummæli Helga í gegnum árin sem eru kveikjan að þessu öllu saman.