Í ræðu sinni á síðasta kvöldi flokksþingsins sem staðið hefur alla vikuna í Chicago hét Harris því að verða forseti allra Bandaríkjamanna og að skapa efnahagslegar aðstæður í landinu sem myndu gera það að verkum að allir eigi möguleika á góðu lífi.
Kamala snerti einnig á rétti kvenna yfir eigin líkama en Repúblikanar hafa þrengt mjög að þeim rétti til þungunarrofs í mörgum ríkjum Bandaríkjanna undanfarin misseri. Þá predikaði Harris einnig um samstöðu þjóðarinnar og kallaði eftir tafarlausu vopnahléi á Gasa-svæðinu.
Flokksþing Demókrata þykir hafa tekist vel en á meðal ræðumanna voru Obama-hjónin, Barack og Michelle, varaforsetaefnið Tim Walz og stórstjarnan Oprah Winfrey, sem skilgreinir sig sem óháðan kjósanda og hvatti hún alla óháða til þess að mæta á kjörstað og kjósa Kamölu.
Nú tekur hin eiginlega kosningabarátta við og meðal annars styttist í kappræður á milli Donalds Trump og Kamölu Harris í beinni útsendingu þann 10. september næstkomandi.