Elías var á sínum stað í marki heimamanna og þeir Daníel Leó Grétarsson og Kristall Máni Ingason voru í byrjunarliði gestanna.
Það voru gestirnir í SønderjyskE sem voru fyrri til að brjóta ísinn þegar Lirim Qamili kom boltanum í netið strax á fjórðu mínútu leiksins áður en Adam Buksa jafnaði metin fyrir heimamenn tíu mínútum síðar.
Mads Agger skoraði hins vegar annað mark SønderjyskE á 33. mínútu og gestirnir leiddu því 2-1 í hálfleik.
Sambíumaðurinn Edward Chilufya og Tékkinn Adam Gabriel sáu hins vegar til þess að það voru heimamenn sem tóku stigin þrjú. Chilufya jafnaði metin fyrir Midtjylland á 56. mínútu áður en Gabriel tryggði liðinu sigur tuttugu mínútum síðar.
Niðurstaðan því 3-2 sigur Midtjylland sem trónir á toppi deildarinnar með 14 stig eftir sex leiki, en nýliðar SønderjyskE sitja í níunda sæti með fjögur stig.