Sigríður óskaði eftir því fyrir um mánuði að Helgi yrði tímabundið leystur frá störfum vegna kæru samtakanna Solaris á hendur honum.
Helgi Magnús segir í nýjasta þætti Dagmála, sem fjallað er um í Morgunblaðinu, að verði það vandamál fyrir Sigríði að hann mæti til vinnu og haldi störfum sínum ótrautt áfram verði hún að eiga við það.
„Ég hef fulla trú á því að Guðrún Hafsteinsdóttir hafni þessu bara, sendi þetta til föðurhúsanna. Ég mæti bara í vinnu og fer að vinna fyrir kaupinu mínu sem þið skattgreiðendur greiðið mér og sinni því af alúð og dugnaði eins og ég hef verið að reyna að gera hingað til,“ segir Helgi í þættinum.
Þá segist hann hafa stigið skref í átt að því að fá samtal við dómsmálaráðherra um málið. Hann segir klárt að fari málið á versta veg fyrir sig muni hann ganga alla leið. Um sé að ræða réttlætismál og hann ætli að standa með sjálfum sér.
„Já, það eru alveg hreinar línur,“ segir Helgi.
„Ég ætla ekkert að bakka út úr því. Ég ætla að standa með sjálfum mér í því og ég ætla að standa keikur á meðan stætt er. Og ég mun fara alla leið með þetta og gef ekkert eftir.“