Böðvari og Guðmundi lenti saman í leik gærdagsins þar sem sá fyrrnefndi gaf Stjörnumanninum olnbogaskot og Guðmundur svaraði fyrir sig með kjaftshöggi. Pétur Guðmundsson, dómari leiksins, virðist ekki hafa séð atvikið enda hvorugum refsað fyrir athæfið.
Sökum þess má þykja ólíklegt að minnst sé á það í skýrslu Péturs frá leiknum sem lögð er fyrir reglubundinn fund aga- og úrskurðarnefndar KSÍ á morgun. Málskotsnefnd KSÍ, en áður var það framkvæmdastjóri KSÍ, hefur aftur á móti heimild til að vísa máli til aganefndarinnar, sér í lagi þegar myndbandsupptökur eru til.
Atvikið sást vel í útsendingu Stöðvar 2 Sport frá leiknum í gær og var það meðal annars til umfjöllunar í Stúkunni í gær þar sem þeir Guðmundur Benediktsson, Atli Viðar Björnsson og Baldur Sigurðsson sammældust allir um það að báðir aðilar ættu skilið leikbann.
Samkvæmt heimildum Vísis mun málinu verða vísað til aga- og úrskurðarnefndar og leiða má líkur að því að báðir leikmenn fari í leikbann.