Lögregluyfirvöld á svæðinu hafa gefið út að einn sé í haldi lögreglu vegna árásarinnar. Samkvæmt CNN er hinn grunaði á menntaskólaaldri en ekki liggur fyrir hvort hann sé nemandi við skólann.
Skothríðin hófst í Appalachee-menntaskólanum í Winder í Georgíu í morgunsárið á staðartíma.
Sjónarvottur lýsir því í samtali við bandaríska miðilinn ABC að hann hafi heyrt byssuhvelli í tíma. Þá hafi kennari hans opnað dyr kennslustofunnar til að gá hvað væri á seyði en þá hafi annar kennari skólans komið hlaupandi og sagt henni að loka hurðinni vegna þess að virkur skotmaður væri á ferðinni.
Síðar hafi einhver barið ítrekað á dyr kennslustofunnar, þar sem nemendur og kennarar skýldu sér, og krafist þess að honum yrði hleypt inn. Þegar hinn sami gafst upp á að komast inn í kennslustofuna hófst skothríðin á nýjan leik og örvæntingaróp ómuðu um gangana. Þegar skothríðin var yfirstaðin var hópi kennara og nemenda fylgt á fótboltavöll skólans þar sem hlúð var að þeim.
CNN greinir einnig frá því að þyrlur hafi verið kallaðar út til að flytja særða á sjúkrahús.