Mbl ræddi í kvöld við Guðmund um landsfundinn sem fram fer 4. til 6. október..
„Ég ligg enn undir feldi og er að hugsa málið. Ég hef ekki tekið ákvörðun enn sem komið er,“ sagði Guðmundur þegar blaðamaður mbl innti hann eftir svörum um framboð til formanns. Sömuleiðis vildi hann ekkert gefa upp um hvenær ákvörðunar hans væri að vænta.
Leggur áherslu á heilbrigðismál, húsnæðismál, umhverfismál og fleira
Flokkurinn muni skerpa á áherslum sínum inn í komandi kosningavetur á landsfundinum að sögn Guðmundar.
Sjálfur telur Guðmundur að flokkurinn þurfi að leggja áherslu á að standa vörð um heilbrigðiskerfið og félagsleg kerfi. Hafna þurfi frekari einkavæðingu á þeim og einkavæðingu á innviðum á borð við vegakerfið og fjarskiptainnviði.
Einnig vill hann að breiðu bökin gefi meira til samfélagsins en þau geri nú og að jafnvægi verði náð á húsnæðismarkaði með því að tryggja nægt framboð af húsnæði, búa til betri leigumarkað og auka félagsleg úrræði. Einnig þurfi að styðja við barnafjölskyldur, sérstaklega þær efnaminni.
„Þegar kemur að náttúruverndinni tel ég að við þurfum að vera með allan vara á okkur vegna aukinnar aðsóknar í orkuauðlindir. Við verðum að geta ráðist í nauðsynleg orkuskipti án þess að fórna verðmætri náttúru sem við berum líka ábyrgð á að vernda,“ sagði Guðmundur í viðtalinu.