Erlent

Skutu vopnaðan mann til bana í München

Hólmfríður Gísladóttir og Samúel Karl Ólason skrifa
Mikill viðbúnaður er í miðborginni.
Mikill viðbúnaður er í miðborginni. AP/Simon Sachseder

Karlmaður var skotinn til bana eftir skotbardaga við lögreglu í München í morgun. Lögreglan segir hættuna liðna hjá eftir að maðurinn var skotinn til bana en lögregluþjónar særðust í skotbardaganum.

Talsmaður lögreglunnar sagði í morgun að maðurinn hafi verið með „langa byssu“, og var ítrekað síðar um að væri að ræða gamlan hálfsjálfvirkan riffil. Maðurinn sást fyrst skömmu eftir klukkan níu að staðartíma. Þegar fimm lögregluþjónar sáu manninn hlupu þeir í átt að honum og kom til skotbardaga.

Lögregluþjónar særðust í þeim skotbardaga en hversu alvarlega liggur ekki fyrir. Enginn annar varð fyrir skoti en maðurinn og lögregluþjónar.

Ekki liggur fyrir hve mörgum skotum var hleypt af en maðurinn er sagður hafa skotið tveimur skotum að miðstöð um rannsóknir á sögu nasismans.

Á svæðinu þar sem skotbardaginn varð er Ísrael með sendiskrifstofu og þar nærri er einnig áðurnefnd miðstöð um rannsóknir á sögu nasismans, þar sem höfuðstöðvar Nasistaflokksins voru áður til húsa.

Í dag eru 52 ár liðin frá því að hryðjuverkamenn gerðu árás á Ólympíuþorpið í München og tóku hóp íþróttamanna frá Ísrael í gíslingu. Ellefu Ísraelar og einn þýskur lögregluþjónn höfðu fallið þegar gíslatökunni lauk.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×