Sport

Bað fjöl­skylduna af­sökunar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dave Castro ræður miklu hjá CrossFit samtökunum og hefur mikið á sinni samsvisku eftir síðustu heimsleika.
Dave Castro ræður miklu hjá CrossFit samtökunum og hefur mikið á sinni samsvisku eftir síðustu heimsleika. @thedavecastro

Dave Castro, íþróttastjóri heimsleikanna í CrossFit, hefur nú svarað sláandi bréfi bróður Lazars heitins Dukic með því að biðjast afsökunar.

Luka Dukic skrifaði um það sem var í gangi á bak við tjöldin þessa afdrifaríku daga þegar bróðir hans drukknaði í fyrstu grein heimsleikanna.

Meðal annars nefndi Luka samskipti sínu við umræddan Dave Castro. Castro hafi komið upp á hótelherbergi til hans ásamt öðrum yfirmanni CrossFit samtakanna og tilkynnt Dukic það að þau myndu klára heimsleikanna en jafnframt tileinka þá látnum bróður hans.

Sagði ekki satt

Samkvæmt því sem hann hefur eftir Castro þá var Dukic og fjölskyldu hans tilkynnt um það að þau hefðu ekkert með það að segja hvaða ákvörðun yrði tekin.

Luka sagðist ekki hafa verið sammála því og hvað þá þegar CrossFit samtökin tilkynntu að þau væru að klára keppnina með samþykki fjölskyldunnar. Það var ekki satt.

Castro segist hafa lesið færslu Luka og ákvað eftir það að biðjast opinberlega afsökunar.

Castro baðst afsökunar á því hvernig hann talaði um Dukic fjölskylduna þegar hann tilkynnti heiminum að þau ætluðu að klára heimsleikana.

Engin blessun frá fjölskyldunni

„Ég las pistil Luka og ég vil biðja hann og alla Dukic fjölskylduna afsökunar,“ skrifaði Castro.

„Ég hefði aldrei átt að segja að ákvörðunin um að halda heimsleikunum áfram hefði fengið blessun frá fjölskyldu þeirra,“ skrifaði Castro.

„Á þessum tímapunkti var búið að taka ákvörðun um að halda heimsleikunum áfram og leyfa okkar fólki að keppa. Við bárum jafnframt virðingu fyrir því íþróttafólki sem ákvað að hætta keppni,“ skrifaði Castro.

Aldrei lent í svona aðstöðu áður

„Þessi ákvörðun var tekin af CrossFit og ég ætlaði mér aldrei að setja þungan af þessari ákvörðun á herðar Luka, Dukic fjölskyldunnar eða CrossFit íþróttafólksins,“ skrifaði Castro.

„Ég hef aldrei lent í svona aðstöðu áður og ég gerði algjörlega mistök. Ég sé mikið eftir því og þeim sársauka sem ég hef valdið,“ skrifaði Castro.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×