Heildartekjur ríkissjóðs á næsta ári verða 1.448 milljarðar og heildarútgjöldin 1.489 milljarðar króna. Það er því stefnt að því að reka ríkissjóð með um 41 milljarða halla á næsta ári.
Áætlað er að skuldir ríkissjóðs minnki um aðeins eitt prósentustig á næsta ári og verði 31 prósent af vergri landsframleiðslu. Þær hafa þó lækkað hraðar undanfarin ár en áætlanir gerðu ráð fyrir enda hafa tekjur ríkissjóðs aukist mikið með auknum umsvifum í efnahagslífinu. Töluvert er um ný og eða aukin útgjöld í frumvarpinu.
Þrátt fyrir þetta segir Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra stjórnvöld sýna aðhald með frumvarpinu og skapa skilyrði fyrir hjöðun verðbólgu og lækkun vaxta.

Hefði ekki verið hægt að skera meira niður í nýjum framlögum og greiða frekar hraðar niður skuldir?
„Nýju framlögin eru fjármögnuð með hagræðingu og aðhaldi í ríkisrekstri og betri nýtingu. Þannig að við erum ekki að auka ríkisumsvifin. Eins og ég kynnti í kynningunni er þetta fimmta árið í röð sem við erum að minnka ríkisumsvif í hlutfalli af hagkerfinu,“ segir fjármálaráðherra.
Þetta viðhaldi aðlögun ríkisfjármála eftir þensluna sem fylgdi árunum á eftir covid faraldrinum og tryggi að fólk hafi atvinnu.
Sérstakar aðgerðir í tengslum við nýgerða kjarasamninga kosta ríkissjóð 14 milljarða á næsta ári og útgjöld vegna breytinga á örorkulífeyriskerfinu aukast um mitt næsta ár. Þá hækkar frítekjumark ellilífeyris um 46 prósent á næsta ári og barnabætur hækka. Persónuafsláttur einstaklinga hækkar einnig í samræmi við verðlag um 6,3 prósent.
Sigurður Ingi segir frumvarpið byggja á fjármálaáætlun til næstu ára sem bæði Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Seðlabankinn segi veita nægjanlegt aðhald til að ná niður verðbólgu.
„Samkvæmt spám Seðlabankans er verðbólgan að fara hratt niður. Við sjáum að hún er að fara niður. Þetta er að koma og við þurfum að hafa úthald til þess. En við erum að forðast kollsteypur," segir fjármálaráðherra.
„Það eru jú til aðilar sem segja að við eigum að fara í grimman niðurskurð. Það myndi kalla á verulegt atvinnuleysi. Það eru líka aðilar sem segja að við eigum bara að hækka skatta verulega. Það myndi líka kalla á verulegan samdrátt hjá fyrirtækjunum. Við erum að fara millileiðina mjúku leiðina til að lenda hagkerfinu. En viðhalda og verja mikilvæga innviði velferðarkerfi og verkefni sem svo sannarlega er kallað eftir í íslensku samfélagi,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson við kynningu fjárlagafrumvarpsins í morgun.
Meðal nýrra og aukinna verkefna má nefna aukin stofnframlög í almenna íbúðakerfið, uppbyggingu samgönguinnviða og almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu, byggingu á nýju fangelsi, ásamt byggingu Þjóðarhallar og legudeldar við sjúkrahúsið á Akureyri.
Sjá má viðtalið við Sigurð Inga Jóhannsson í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan.