Mótmælendur söfnuðust saman á Austurvelli við þingsetningu og sökuðu stjórnvöld um aðgerðaleysi gegn verðbólgu. Fólk sem fréttastofa ræddi við sagðist hafa fengið sig fullsatt af ríkisstjórninni og háu verðlagi. Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, kallaði eftir neyðaraðgerðum við neyðarástandi.

Einn mótmælandi sem gaf sig á tal við fréttastofu sagðist alls ekki vera vongóður að þingmenn og stjórnvöld hlusti á mótmælendur. Hann hélt á skilti sem stóð á „BURT með kapítalískt einræði!“ og sagðist hafa mætt snemma á Austurvöll til að sjá þingmennina ganga frá Dómkirkjunni yfir í þingsalinn þegar þingsetningin fór fram.
„Ég er mjög þreyttur að ríkisstjórnin er bara að vinna fyrir auðmenni. Það er djúp krísa í húsnæði með verðbólgu og með heilbrigðiskerfið. Okkur langar í þjónustu, við sem kjósum, við sem vinnum.“

Annar mótmælandi sagði að það eina í stöðunni væri að losna við ríkisstjórnina sem fyrst.
„Í dag er verið að leggja fram fjárlög og það er látið eins og allt sé hér í góðu lagi á meðan, mér sýnist fjórar af hverjum fimm barnafjölskyldum vera gjörsamlega úr takti við alla pólitíska umræðu ríkisstjórnarinnar.“

Magnús Þór Jónsson, formaður KÍ, Sonja Þorbergsdóttir, formaður BSRB, Halla Gunnarsdóttir, varaformaður VR, og Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis voru ræðufólk dagsins á fundinum. Gestir tóku vel undir orð ræðufólksins og mátti heyra „vanhæf ríkisstjórn, vanhæf ríkisstjórn,“ óma frá gestum í átt að þinghúsi. Talsvert var einnig um baul og klapp á fundinum.


Ragnar Þór Ingólfsson, varaforseti ASÍ og formaður VR, var með fundarstjórn. Að loknum fundi sagðist hann vera mjög ánægður með mætinguna og vonaðist eftir enn betri mætingu á komandi mótmælum.

„Ég er ekkert sérstaklega vongóður. Ég held að það þurfi fleiri mótmæli og enn þá betri mætingu. Við skulum sjá, við skulum sjá hvað setur. Vonandi verða þetta ákveðin skilaboð og kveikja til að vekja fólk aðeins upp, því það gerist ekkert nema við berjumst fyrir því.“
Sonja tók undir orð Ragnars og sagði í samtali við fréttastofu að mikilvægast væri að færa einbeitingu stjórnvalda yfir á að bæta kjör heimilanna á landinu.
„Þetta var dúndur mæting miðað við mjög stuttan fyrirvara. Ef við ætlum að rjúfa vítahring verðbólguvaxta þá þarf að tryggja uppbyggingu á húsnæði, það þarf neyðaraðgerðir við þessu neyðarástandi. Það er eitthvað sem stjórnvöld þurfa að grípa boltann með núna.“



