Erlent

Bon Jovi lofaður fyrir að bjarga konu í sjálfsvígshugleiðingum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Á myndskeiðinu sést hvernig Bon Jovi nálgast konuna yfirvegað og ræðir við hana í rólegheitum.
Á myndskeiðinu sést hvernig Bon Jovi nálgast konuna yfirvegað og ræðir við hana í rólegheitum. Getty/Theo Wargo

Lögregluyfirvöld í Nashville í Tennessee í Bandaríkjunum hafa lofað tónlistarmanninn Jon Bon Jovi fyrir að koma konu til bjargar sem virðist hafa ætlað að kasta sér fram af göngubrú.

Atvikið átti sér stað á Seigenthaler-göngubrúnni sem liggur yfir Cumberland-á en á eftirlitsmyndatökum sést konan klifra yfir girðingu á brúnni og standa á brún hinum megin við hana. 

Þá sést hvernig Bon Jovi gengur rólega að konunni ásamt annarri konu og tekur sér stöðu skammt frá henni og ræðir við hana í rólegheitum. Skömmu síðar aðstoða tónlistarmaðurinn og félagi hans konuna við að koma aftur yfir girðinguna.

Þau faðma konuna og ganga með henni yfir brúna.

„Við verðum öll að hjálpa til við að passa upp á hvert annað,“ tísti lögreglustjórinn John Drake á X/Twitter.

Bon Jovi, sem er þekktur fyrir góðagerðastörf sín og rekur meðal annars fjögur eldhús þar sem fólk getur fengið að borða og borgað bara það sem það hefur efni á, er sagður hafa verið á brúni til að taka upp tónlistarmyndband.

Bon Jovi gaf út sína 16. plötu fyrr á þessu ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×