Samkvæmt fréttatilkynningu Taekwondosambands Íslands er um að ræða besta árangur íslensks karlkeppanda síðan Björn Þorleifsson vann silfur á British Open fyrir fimmtán árum.
Leo, sem keppti í -68 kg flokki, hóf mótið á að vinna finnskan keppanda af öryggi, 2-0. Hann vann svo Króata 2-1 og hafði þar með tryggt sér sæti í undanúrslitum, og að minnsta kosti bronsverðlaun.
Í undanúrslitunum beið danskur keppandi sem vann bronsverðlaun á síðasta Evrópumóti. Daninn komst yfir í fyrstu lotu en Leo sýndi mikla þrautseigju og náði á endanum að vinna lotuna, eftir myndbandsdóm.
Leo vann bardagann 2-0 og komst þar með í úrslit gegn belgískum keppanda. Þar vann Leo fyrstu lotuna en tapaði lotu tvö. Oddalotan endaði svo 5-5 en Belganum var dæmdur sigur vegna hærri tækni. Það gat því vart tæpara staðið að Leo landaði gullverðlaunum en hann fékk silfur með sér heim.
Hér að neðan má sjá myndbandsupptöku frá mótinu en tímasetning bardaga Leos voru þessar:
- Bardagi 1 ( 31:12 mín)
- Bardagi 2 (2:49:40 mín)
- Bardagi 3 (5:04:44 mín)
- Bardagi 4 (7:07:28 mín)
Guðmundur Flóki Sigurjónsson keppti einnig á mótinu, í -73 kg unglingaflokki, og endaði í 5. sæti. Hann vann keppanda frá Úkraínu af öryggi, 2-0, en tapaði svo gegn frönskum keppanda.