Fótbolti

Viður­kennir að hafa sleppt því að spjalda Messi til að fá treyjuna hans

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lionel Messi gat þakkað dómaranum Carlos Chandia fyrir að geta spilað úrslitaleik Suður-Ameríkukeppninnar 2007.
Lionel Messi gat þakkað dómaranum Carlos Chandia fyrir að geta spilað úrslitaleik Suður-Ameríkukeppninnar 2007. getty/Kevin C. Cox

Lionel Messi er víða í uppáhaldi, meðal annars hjá dómurum. Einn þeirra viðurkennir að hafa sleppt því að gefa argentínska snillingnum spjald til að geta fengið treyjuna hans.

Sílemaðurinn Carlos Chandia dæmdi leik Argentínu og Mexíkó í undanúrslitum Suður-Ameríkukeppninnar 2007.

Messi skoraði eitt marka Argentínumanna í 3-0 sigri en undir lok leiksins hefði hann átt að fá gult spjald þegar hann handlék boltann. Ef það hefði gerst hefði Messi misst af úrslitaleiknum. Chandia hefur nú útskýrt af hverju hann sleppti því að gefa Messi gula spjaldið.

„Upp úr þurru snerti Messi boltann með höndinni en á miðjum vellinum. Það var ekkert færi fyrir mexíkóska liðið eða neitt þannig. Svo ég sagði við hann: Þetta er gult spjald en það mun kosta þig treyjuna. Og ég gaf honum ekki spjald,“ sagði Chandia við ESPN.

„Það voru tvær og hálf mínúta eftir af leiknum og staðan var 3-0. Ef ég hefði gefið honum spjald hefði hann ekki getað spilað úrslitaleikinn.“

Messi þekktist boð Chandias og gaf honum treyju sína eftir leikinn. Dómarinn gaf syni sínum síðan treyjuna.

Messi og félagar töpuðu úrslitaleiknum gegn Brasilíu, 3-0.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×