Orri Freyr Þorkelsson og félagar í Sporting sýndu Fredericia enga miskunn þegar þeir sóttu danska liðið heim í gær og unnu átján marka sigur, 19-37.
„Auðvitað er ég mjög vonsvikinn með frammistöðuna í kvöld. Þetta var mjög slæmt allt frá byrjun. Vörnin var slæm, sóknin var slæm og við töpuðum boltanum tólf sinnum, bara í fyrri hálfleik,“ sagði Guðmundur við TV 2 eftir leikinn sem fór fram í Óðinsvéum.
„Ég verð að segja að þetta er eitt það versta sem ég hef upplifað lengi. Þetta var svona allan leikinn. Við vorum mjög slakir í vörninni og ekki sjálfum okkur líkir.“
Fredericia hefur tapað fyrstu tveimur leikjum sínum í Meistaradeildinni með samtals 27 marka mun.
„Liðin í Meistaradeildinni eru svo góð svo þú verður að spila þinn besta leik til að eiga möguleika. Þetta var bara slakur leikur hjá okkur í dag,“ sagði Guðmundur sem hefur gert frábæra hluti með Fredericia síðan hann tók við liðinu fyrir tveimur árum.
Á síðasta tímabili komst liðið í úrslitaeinvígið um danska meistaratitilinn og var hársbreidd frá því að vinna hann. Í kjölfarið komst Fredericia í Meistaradeildina í fyrsta sinn í fjörutíu ár.