Lehmann var stöðvaður af lögreglu um klukkan hálftvö um nótt og var þá enn klæddur í „lederhosen“, leðurstuttbuxurnar sem eru svo einkennandi fyrir Októberfest.
„Lögreglan segir að hann hafi lyktað af áfengi og ekið með glæfralegum hætti,“ segir saksóknarinn Anne Leiding.
Októberfest er í fullum gangi í München en þessi mikla hátíð, sem einkennist meðal annars af mikilli bjórdrykkju, stendur yfir í sextán daga, fram til 6. október að þessu sinni. Áætlað er að um sex milljónir gesta heimsæki þýsku borgina vegna hátíðarinnar.
Lehmann var einn af þeim sem skemmtu sér vel á hátíðinni en þýska blaðið Bild segir að sést hafi til hans standandi og dansandi uppi á einum af löngu bekkjunum á hátíðinni, á sunnudagskvöld. Eftir það settist hann undir stýri.
Gat ekki blásið í mælinn
Lögreglan reyndi að mæla áfengismagnið í Lehmann en það tókst ekki þar sem að hann blés ekki nógu fast. Því var farið með hann á lögreglustöðina og þar tekið blóðsýni.
„Rannsóknin er enn í gangi. Hann er grunaður um akstur undir áhrifum áfengis,“ segir saksóknarinn.
Bild óskaði eftir viðbrögðum frá Lehmann en hann hefur ekki viljað tjá sig.

Lehmann er 54 ára gamall. Hann lék á sínum tíma 61 A-landsleik fyrir Þýskaland, síðast árið 2008. Lehmann varði um árabil mark Arsenal, frá 2003-2008 og svo aftur í einum deildarleik árið 2011. Hann lék einnig með Stuttgart, Dortmund og AC Milan en hóf ferilinn með Schalke. Lehmann var markmannsþjálfari hjá Arsenal 2017-2018 og svo aðstoðarþjálfari hjá þýska félaginu Augsburg árið 2019.
Lehmann tók svo sæti í stjórn Hertha Berlin árið 2020 en var rekinn ári síðar eftir að hafa sent skilaboð til Dennis Aogo, sérfræðings hjá Sky, um að hann væri aðeins í því starfi til að uppfylla kröfu um að hafa svartan mann í sérfræðingahópnum. Hann baðst síðar afsökunar á þeim skilaboðum.