Fylgi hreyfingarinnar hefur mælst um eða undir fjórum prósentum undanfarna mánuði. Í nýjustu könnun Maskínu var það 3,7 prósent og flokkurinn í hættu á að detta út af þingi. Stjórnarflokkarnir hafa reyndar allir hrunið í fylgi frá kosningunum 2021. Í fréttum okkar á þriðjudag sagðist Svandís telja eðlilegt að kjósa til Alþingis næsta vor, þótt kjörtímabilið renni ekki formlega út fyrr en 25. september á næsta ári.
Eftir þrjú ár í borgarstjórn fyrir Vinstri græn náði Svandís kjöri til Alþingis og varð ráðherra í ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna sem tókst á við það verkefni að endurreisa Ísland eftir hrun bankakerfisins. Hún var helsti bandamaður Katrínar Jakobsdóttur allt frá því Katrín varð formaður árið 2013. Nú sækist hún eftir að taka við forystukeflinu á miklum örlagatímum í sögu hreyfingarinnar.
Svandís mætir í Samtalið með Heimi Má í beinni útsendingu klukkan 14:00. Það gæti þó dregist um nokkrar mínútur þar sem hún þarf að taka þátt í atkvæðagreiðslu sem fyrirhuguð er á Alþingi klukkan 13:30 um nýjan umboðsmanns Alþingis.
Útsendingunni er lokið en upptöku af þættinum má sjá hér að neðan.