Erlent

Einn stærsti felli­bylur síðustu hundrað ára veldur usla í Flórída

Samúel Karl Ólason skrifar
Mynd af Helenu sem tekin var úr gervhnetti, áður en auga fellibylsins náði landi í Flórída.
Mynd af Helenu sem tekin var úr gervhnetti, áður en auga fellibylsins náði landi í Flórída. AP/NOAA

Helena, einn öflugasti og stærsti fellibylur Karíbahafsins síðustu öldina, hefur leitt til að minnsta kosti þriggja dauðsfalla í Bandaríkjunum í nótt. Fellibylurinn náði landi í Flórída nótt sem fjórða stigs fellibylur en hefur misst töluverðan kraft síðan þá og er nú yfir Georgíu.

Rúmlega 2,4 milljónir íbúa á svæðinu eru án rafmagns en öflugar vindhviður eru sagðar hafa valdið miklum skaða á dreifikerfi Flórída og Georgíu. Einn er sagður hafa dáið í Flórída þegar skilti fauk á bíl viðkomandi og tveir létu lífið vegna hvirfilbyls í Georgíu.

Vindhraði Helenu mældist þegar mest var allt að 63 metrar á sekúndu, samkvæmt Washington Post.

Sjór náði langt inn á land

Embættismenn í Flórída höfðu varað við því að sjávarstaða gæti hækkað um allt að sex metra vegna Helenu.

Sjávarhæðarmælar í Tampa Bay, sem er nokkuð frá staðnum þar sem Helena náði landi, sýndu að hæstu sjávarhæð sem mælst hefur frá því mælingar hófust árið 1950. Fimm slíkir mælar eru í Tampa Bay, sem er í rúmlega hundrað og fimmtíu kílómetra fjarlægð frá staðnum þar sem auga Helenu náði landi.

Allir mælar sýndu umtalsverða hækkun frá gamla metinu, samkvæmt frétt CNN. Met eins mælis hækkað um 69 sentímetra.

Þvermál Helenu mældist þegar mest var um 675 kílómetrar, sem er mun meira en aðrir kröftugir fellibylir sem farið hafa yfir svæðið á undanförnum árum.

Flóðbylgjur sem fellibyljir af þessar stærðargráðu valda eru iðulega það hættulegasta við þá. Vindur getur fellt tré, rifið þök af húsi og valdið rafmagnsleysi. Flóðbylgjurnar geta þó rifið hús af grunni, skolað vegum og brúm á brott og drekkt fólki í massavís.

Sérfræðingar segja flóðbylgjur valda mun fleiri dauðsföllum en sterkar vindhviður. Enn er nótt í Flórída og er lítið til af mynefni af skemmdunum sem Helena hefur valdið.

Margir rigningarmælar í Flórída og Norður- og Suður-Karólínu hafa sýnt allt að 23 sentímetra rigningu. Íbúar þessara ríkja hafa verið varaðir við skyndiflóðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×