Innlent

Bylting í skóla­kerfinu og flug­freyja sem eyddi húsnæðissparnaðinum í flug­nám

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Kolbeinn Tumi Daðason les fréttir á Stöð 2 í kvöld.
Kolbeinn Tumi Daðason les fréttir á Stöð 2 í kvöld.

Menntamálaráðherra boðar nýtt og gríðarumfangsmikið matskerfi, sem taka á upp í grunnskólum á næsta skólaári. Kennarasambandið styður nýja kerfið heilshugar. Viðskiptaráð segir einfalt að gera breytingar á kerfinu, það þurfi að taka upp samræmd próf á ný.

Við fjöllum um málið í kvöldfréttum Stöðvar 2 klukkan 18:30 og fáum Dagnýju Hróbjartsdóttur, móður og stjórnarkonu í samtökunum Heimili og skóla, til okkar í myndver. Hún segir foreldra verða að taka sig á; ef þeir hafi tíma til að hámhorfa hverja Netflix-seríuna á fætur annarri hafi þeir tíma til að sinna börnunum.

Þá hittum við Sólveigu Önnu Jónsdóttur formann Eflingar í beinni útsendingu. Hún hefur boðað verkfallsaðgerðir á hjúkrunarheimilum, náist ekki samkomulag milli Eflingar og Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu. Fundað hefur verið í deilunni frá því um hádegisbil.

Við sýnum einnig nýjar loftmyndir frá Goðabungu í Mýrdalsjökli, þar sem stærsti jarðskjálfti ársins mældist snemma í morgun, og hittum fyrrverandi flugfreyju sem fórnaði húsnæðissparnaðinum í flugnám. Loks verðum við í beinni útsendingu úr líkamsræktarstöðinni Afreki, þar sem vikulegur hóptími sem eingöngu er ætlaður trans- og kynsegin fólki fer fram í kvöld.

Í sportinu hittum við langstökkvarana Daníel Inga og Irmu, sem eru við það að taka stökkið inn í atvinnumennskuna, og í Íslandi í dag förum við í morgunkaffi til framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs. Þéttur frétta- og sportpakki í opinni dagskrá á Stöð 2 á slaginu 18:30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×