„Þetta er nokkuð dæmigert er það ekki?“ segir Andri Lucas í samtali við blaðamann BBC sem ritar grein um endurkomu Guðjohnsen nafnsins á Stamford Bridge. „Að dragast á móti Chelsea í Sambandsdeildinni.“
Eiður Smári Guðjohnsen á sérstakan stað í hjörtum stuðningsmanna Chelsea eftir að hafa leikið þar á sínum tíma og verið afar sigursæll.
Með Chelsea varð Eiður Smári til að mynda í tvígang Englandsmeistari. Hann lék 263 leiki fyrir félagið, skoraði 78 mörk og gaf fjörutíu stoðsendingar á yfir sex ára tímabili frá 2000 til ársins 2006 en þá lá leið hans til Barcelona.

Allir þrír synir Eiðs Smára hafa fylgt í fótspor hans og eru nú atvinnumenn í knattspyrnu. Andri Lucas er næstelsti sonur Eiðs Smára og leikur eins og áður segir með Gent sem mætir á Brúna í kvöld.
Sjálfur er Andri 22 ára gamall. Fæddur árið 2002 og segist hann muna glefsur frá tíma föður síns hjá Chelsea.

„Það fyrsta sem ég gerði, þegar að ég sá að við höfðum dregist á móti Chelsea, var að hringja í föður minn. Þetta er sérstakt. Bæði fyrir mig og hann. Þegar að ég fæddist var pabbi leikmaður Chelsea. Þetta er einstakur dráttur að fá í Sambandsdeildinni.“
Í ítarlegri grein BBC um Guðjohnsen fjölskylduna er farið yfir þær kynslóðir knattspyrnumanna sem er að finna í fjölskyldunni. Greinina má finna hér.