Eftir því sem næst verður komist er áhorfendametið í efstu deild kvenna á Íslandi 1.206 manns. Það var sett á leik Breiðabliks og Vals í næstsíðustu umferðinni 2019.
Leikir Vals og Breiðabliks hafa ráðið miklu um það hvar Íslandsmeistaratitilinn hefur endað síðustu ár en liðin hafa ekki mæst í hreinum úrslitaleik eins og á morgun.
Félögin leggja mikið upp úr því að fá fólk til að mæta á leikinn á morgun og verður dagskráin fyrir hann vegleg. Klukkan 15:00 hefst fjölskylduhátíð á Hlíðarenda þar sem verður boðið upp á alls konar húllumhæ og veitingar. Frítt er á völlinn fyrir sextán ára og yngri.
Valur og Breiðablik hafa mæst þrisvar sinnum í sumar. Í fyrri deildarleiknum á Kópavogsvelli mættu aðeins 112 manns en á þann seinni á Hlíðarenda 821. Liðin mættust svo í úrslitaleik Mjólkurbikarsins þar sem 1.451 var viðstaddur.
Leikur Vals og Breiðabliks hefst klukkan 16:15 á morgun og verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Upphitun fyrir leikinn hefst klukkan 15:45.
Uppfært kl. 13:00
Eftir ábendingu frá lesenda og nánari skoðun er áhorfendametið í efstu deild líklega 1.372 manns sem mættu á leik Þórs/KA og FH í lokaumferðinni 2017. Áhorfendatölur eru ekki skráðar í leikskýrslu á vef KSÍ en samkvæmt mbl.is voru 1.372 manns á leiknum.