Handbolti

Ó­vænt nýr vinstri horna­maður í ís­lenska lands­liðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dana Björg Guðmundsdóttir hefur verið að gera mjög góða hluti með Volda í norska handboltanum í vetur.
Dana Björg Guðmundsdóttir hefur verið að gera mjög góða hluti með Volda í norska handboltanum í vetur. @voldahandbal

Það verður nýtt andlit í landsliðshópi Arnars Péturssonar fyrir komandi æfingaleiki við Pólland. Nýliðinn kemur inn í hópinn í fyrsta sinn aðeins tæpum mánuði fyrir stórmót.

Íslenska kvennalandsliðið í handbolta er að undirbúa sig fyrir Evrópumótið í Austurríki í nóvember og desember næstkomandi.

Liðið kemur saman 21. október og verður saman í viku. Liðið spilar vináttulandsleiki við Pólland í þessum glugga sem verða þá síðustu undirbúningsleikir liðsins fyrir EM.

Arnar Pétursson landsliðsþjálfari hefur samkvæmt áreiðanlegum heimildum Vísis ákveðið að taka inn nýliða í hópinn fyrir þetta verkefni og það leikmann sem hefur aldrei spilað á Íslandi.

Leikmaðurinn heitir Dana Björg Guðmundsdóttir og spilar sem vinstri hornamaður hjá norska b-deildarliðinu Volda. Hún er 22 ára gömul, fædd árið 2002.

Dana Björg hefur búið í Noregi alla tíð en báðir foreldrar hennar eru íslenskir. Það eru þau Guðmundur Bragason og Inga Steingrímsdóttir sem voru bæði margfaldir Íslandsmeistarar í vaxtarrækt á síðustu öld.

Dana Björg hefur verið að spila mjög vel með Volda í vetur og skoraði meðal annars fimmtán mörk í bikarleik í haust.

Volda er í öðru sæti í norsku b-deildinni eins og er en Dana hefur skorað 51 mark í fyrstu sex deildarleikjunum eða 8,5 mörk að meðaltali í leik.

Hún er langmarkahæst í Volda liðinu eða með þrettán mörkum meira en sú næstmarkahæsta.

Hún hélt upp á landsliðssætið með því að skora ellefu mörk úr aðeins þrettán skotum í síðasta leik og aðeins einn leikmaður í norsku b-deildinni hefur skorað meira en hún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×