Körfubolti

Haukar unnu með 45 stiga mun

Sindri Sverrisson skrifar
Stjarnan átti afar erfitt uppdráttar í kvöld.
Stjarnan átti afar erfitt uppdráttar í kvöld. vísir/Diego

Haukar byrja af miklum krafti í Bónus-deild kvenna í körfubolta og hafa unnið alla þrjá leiki sína til þessa. Í kvöld vann liðið algjöran risasigur gegn Stjörnunni í Garðabæ, 103-58.

Haukar voru 28-11 yfir eftir fyrsta leikhluta og slökuðu aldrei á. Liðið jók forskot sitt í 25 stig fyrir hálfleik og hafði þá í raun gert út um leikinn, en bætti sífellt við forskotið og endaði á að vinna 45 stiga sigur.

Stjarnan, sem hóf leiktíðina á að vinna sjálfa Íslandsmeistara Keflavíkur, hefur þar með tapað tveimur af þremur fyrstu leikjum sínum en liðið lá gegn Tindastóli á Sauðárkróki í síðustu umferð.

Diamond Battles skoraði 21 stig í jöfnu liði Hauka, Tinna Guðrún Alexandersdóttir 20 og þær Þóra Kristín Jónsdóttir og Lore Devos 17 stig hvor.

Hjá Stjörnunni var Fanney María Freysdóttir stigahæst með 14 stig og Kolbrún María Ármannsdóttir skoraði 10.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×