Sport

Stór­meistara vísað úr móti fyrir að nota símann sinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kirill Shevchenko við skákborðið á móti í Varsjá í Póllandi fyrr á þessu ári.
Kirill Shevchenko við skákborðið á móti í Varsjá í Póllandi fyrr á þessu ári. Getty/Andrzej Iwanczuk

Einn af sjötíu bestu skákmeisturum heims varð uppvís að því að svindla í alþjóðlegu skákmóti á Spáni.

Rúmenski stórmeistarinn Kirill Shevchenko er í 69. sæti á heimslistanum. Hann var að keppa í liðakeppni á móti í Melilla á Spáni en hefur nú verið vísað úr keppni. CNN segir frá.

Shevchenko hafði gert jafntefli í tveimur fyrstu skákunum sínum á mótinu.

Spænska skáksambandið sendi frá sér fréttatilkynningu þar sem kom fram að Shevchenko hafi verið vísað úr keppni fyrir að nota símann sinn í skákum sínum.

„FEDA [Alþjóðaskáksambandið] tekur mjög hart á öllu svindli í skákíþróttinni og bregst ávalt við af festu þegar kemst upp um svindl. Okkur þykir leiðinlegt að þetta hafi komið fyrir. Við viljum líka taka það fram að hegðun þessa einstaklings hefur ekkert með félag hans eða liðsfélaga að gera. Framkoma þeirra var óaðfinnanleg,“ sagði í fréttatilkynningu spænska sambandsins.

Kirill Shevchenko er 22 ára gamall og fæddur í Úkraínu. Hann hefur verið með rúmenskt vegabréf frá árinu 2023. Hann varð stórmeistari árið 2017 eða þegar hann var aðeins fimmtán ára. Hann var með 2656 skákstig á síðasta lista en hefur hæst komist í 39. sæti sem var í júní 2023.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×