Í tilkynningu frá Landsvirkjun segir að ekki sé hægt að sjá fyrir hversu lengi þessar skerðingar muni standa yfir, en reikna megi með að það verði fram á næsta vor.
Þá segir að Landsvirkjun hafi hvatt stórnotendur til að draga úr álagi og skoða mögulega endursölu á rafmagni í þeim tilgangi.
Tekið er fram að einungis sé verið að skerða orku sem Landsvirkjun og viðskiptavinir hennar hafa samið um að sé „skerðanleg“ þegar staða miðlunarlóna er lág.
„Þetta eru sambærilegar aðgerðir og gripið var til í skerðingum fyrr á þessu ári,“ segir í tilkynningunni.
Ástæðan er sögð vera, nú sem fyrr, slæm staða miðlunarlóna.
„Þórisvatn var langt frá því að fyllast í haust og niðurdráttur lónsins hefur verið mjög eindreginn. Sumarið var þurrt og kalt á hálendinu og bráðnun jökla lítil. Á sama tíma hefur staðið yfir stöðugur flutningur raforku frá Norður- og Austurlandi til suðurs í þeim tilgangi að jafna miðlunarstöðu milli landshluta. Vegna takmarkana í flutningskerfi Landsnets var ekki gripið til skerðinga fyrir norðan og austan fyrr en nú.“
Fréttin hefur verið uppfærð. Í upprunalegri útgáfu sagði að skerðingin á norður- og austurhluta landsins myndi hefjast í dag, en hún gerir það eftir mánuð.