Lýðræðisflokkurinn kynnti í morgun þau sem munu skipa efstu sætin á listum flokksins í komandi þingkosningum.
Arnar Þór Jónsson, lögmaður og stofnandi flokksins, leiðir í Suðvesturkjördæmi, Baldur Borgþórsson, ráðgjafi og fyrrverandi varaborgarfulltrúi, í Reykjavíkurkjördæmi norður, Kári Allanson, lögfræðingur og tónlistarmaður, í Reykjavíkurkjördæmi suður, Elvar Eyvindsson bóndi í Suðurkjördæmi, Gunnar Viðar Þórarinsson framkvæmdastjóri í Norðausturkjördæmi og Eldur Smári Kristinsson, formaður Samtakanna 22, í Norðvesturkjördæmi.
Gagnrýninn á Samtökin '78
Sá síðastnefndi á listanum, Eldur Smári, sem einnig hefur gengið undir nafninu Eldur Deville, hefur vakið talsverða athygli undanfarin ár fyrir innlegg hans í umræðuna um málefni hinsegin fólks.
Hann leiðir Samtökin 22, sem hafa það yfirlýsta markmið að berjast fyrir réttindum samkynhneigðra. Hann hefur gagnrýnt Samtökin '78 harðlega fyrir fræðslustarfsemi samtakanna og skipulagt mótmæli á Austurvelli, þar sem nokkrir komu saman og mótmæltu til að mynda kynleiðréttingum barna.
Uppfært: Upphaflega stóð að yfirlýst markmið Samtakanna 22 væri að berjast fyrir réttindum samkynhneigðra en ekki trans fólks. Það segir Eldur ekki rétt, í tölvubréfi til blaðamanns.
„Hinsvegar er alveg rétt að við höfum gagnrýnt fræðslustarfsemi Samtakanna ´78 og vissulega mótmælum við hástöfum þegar börn verða fórnarlömb tilraunastarfsemi og ógagnreyndra meðferða í heilbrigðiskerfinu. Það er borgaraleg skylda sérhvers manns.“
Trans kona í sama kjördæmi
Þetta vekur helst athygli nú þar sem annar oddviti í Norðvesturkjördæmi er Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir, trans kona og einn öflugasti málsvari trans fólks á Íslandi og reyndar þótt víðar væri leitað.