Samkvæmt opinberum tölum hlaut Georgíski draumurinn, sitjandi stjórnarflokkur Georgíu, 54 prósent atkvæða þrátt fyrir að útgönguspár hafi bent til sigurs stjórnarandstöðunnar. Salome Zourabicvili, forseti, hefur haldið því fram að úrslitin hafi verið fölsuð en hún hefur ekki lagt fram sannanir fyrir því.
Embætti ríkissaksóknara sagðist í dag hafa boðað Zourabichvili til skýrslutöku á morgun, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Rannsóknin hefði verið opnuð að beiðni yfirkjörstjórnar landsins en hún heldur því fram að kosningarnar hafi farið vel fram.
Stjórnarandstaðan gagnrýndi að ríkissaksóknari ætlaði ekki að skipa óháðan rannsakanda í ljósi þess að yfirmaður embættisins var skipaður af þingmeirihluta Georgíska draumsins.
Kosningaeftirlitsmenn Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) sögðu að dæmi hafi verið um að kjósendum hefði verið ógnað eða þeim mútað og að kjörkassar hafi verið fylltir með atkvæðum sem hefðu getað haft áhrif á úrslitin. Þeir fullyrtu þó ekki að úrslitunum hefði verið hagrætt.
Kosningunum um helgina var stillt upp sem vali kjósenda á milli afturhvarfs fyrru sovétlýðveldisins í faðm Rússlands undir Georgíska draumnum annars vegar eða aukins samstarfs til vesturs hins vegar.
Georgía hefur stöðu umsóknarríkis hjá Evrópusambandinu en umsóknin var fryst eftir að Georgíski draumurinn kom í gegn lögum sem þrengja verulega að fjölmiðlum og frjálsum félagasamtökum fyrr á þessu ári. Þá hét stofnandi Georgíska draumsins því fyrir kosningar að banna stjórnarandstöðuna í landinu næði flokkur hans meirihluta á þingi.