Þrír hinna látnu voru í Castilla-La Mancha og Andalúsíu.
Í gærkvöldi var tala látinna komin í 155. Samhliða hækkun fjölda látinna hefur reiði íbúa í garð yfirvalda einnig aukist.
Eins og þekkt er varð mikið úrhelli á Spáni á þriðjudagskvöld og miðvikudagsmorgun sem leiddi meðal annars til þess að götur Valencia líktust stórfljótum. Margar götur borgarinnar eru enn stíflaðar með aur og bílum og í sumum tilfellum eru íbúar fastir á heimilum sínum, samkvæmt AP fréttaveitunni.
Miklir þurrkar hafa verið á Spáni síðustu tvö ár og þykir það hafa gert flóðin mun verri en ella. Er það sökum þess hve þurr og harður jarðvegurinn var og flaut mest allt vatnið því einfaldlega ofan á honum.
Um sautján hundruð hermenn eru samkvæmt El País að störfum við hreinsun og björgun á svæðinu og hafa forsvarsmenn varnarmálaráðuneytis Spánar heitið allri þeirri aðstoð sem þörf er á.

Íbúar segjast þó ósáttir.
„Ástandið er ótrúlega. Þetta voru hamfarir og það er mjög litla hjálp að fá,“ sagði Emilio Cuartero, íbúi úthverfis Valencia við AP fréttaveituna. Hann sagði íbúa þurfa matvæli og einnig vinnuvélar til að auðvelda hreinsun og björgunarstörf.
Íbúar hafa einnig kvartað yfir skorti á öðrum nauðsynjum eins og lyfjum.
Í Chiva, nærri Valencia, mældist meiri rigning á átta klukkustundum en mælst hafði í bænum á síðustu tuttugu mánuðum. Heilu húsin eru sögð hafa horfið í meðfylgjandi flóðum á svæðinu og er margra saknað. Hversu margra, liggur ekki fyrir enn en óttast er að margir sitji enn fastir í bílum eða byggingum á svæðinu.
Einn íbúi Chiva sagði í samtali við AP að hann hefði misst allt í flóðunum. Hefði flúið fimm mínútum seinna en hann gerði hefði hann einnig tapað lífinu.