Foreldrar sem fréttastofa ræddi við á vettvangi gerðu margir athugasemdir við aðferðarfræðina við ákvörðun verkfallanna, það sé aðeins lítill hópur barna sem ekki fái að fara í skólann eða leikskólann, á meðan flest börn í öðrum skólum landsins geti áfram farið í skólann. Líkt og kunnugt er nær verkfallið sem stendur aðeins til alls níu skóla um landið á öllum skólastigum.


„Við höfum upplifað okkur máttlaus í þessari baráttu þar sem þetta eru fjórir leikskólar af 270 sem verða bara fyrir miklu áfalli í rauninni,“ segir Salka Sól Eyfeld sem er ein þeirra foreldra leikskólabarna sem eru heima í verkfalli. Verkfallið komi misilla niður á fjölskyldum en staðan sé erfið fyrir marga.
„Við erum í ágætri stöðu mín fjölskylda en það er fullt af fjölskyldum sem eru það ekki. Okkur hefur bara fundist eins og það sé ekki nógu mikil umræða um þetta. Nú eru læknar líka í kjaradeilu, þannig að þetta fær nánast ekki pláss í fréttum lengur og ég er að hitta fólk sem er með börn á svipuðum aldri og ég sem veit ekki einu sinni af því að það séu verkföll í gangi,“ segir Salka.

„Við finnum svo harkalega fyrir þessu. Bæði við sem fjölskylda og börnin okkar. Við erum ógeðslega sár fyrir hönd barnanna okkar að missa úr leikskóla og óvissan með þetta. Þetta er ótímabundið verkfall og við bara sjáum ekki fram á að það sé eitthvað að gerast í kjaradeilunni. Okkur finnst það leiðinlegt,“ segir Salka.

