Fótbolti

Sæ­dís í stuði með meisturunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sædís Rún Heiðarsdóttir er að gera flotta hluti með besta liði Noregs.
Sædís Rún Heiðarsdóttir er að gera flotta hluti með besta liði Noregs. Getty/Marius Simensen

Íslenska landsliðskonan Sædís Rún Heiðarsdóttir var í stuði með nýkrýndum Noregsmeisturum Vålerenga í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag en bakvörðurinn var bæði með mark og stoðsendingu í góðum sigri.

Vålerenga var búið að tryggja sér titilinn fyrir nokkru síðan en liðið vann þarna 3-1 útisigur á Arna-Björnar.

Sædís Rún kom Vålerenga í 1-0 eftir aðeins fimm mínútna leik og ellefu mínútum síðar hafði Mawa Sesay bætt við marki. Fyrirliðinn Olaug Tvedten lagði upp bæði mörkin.

Leikmenn Arna-Björnar minnkuðu muninn í 2-1 á 57. mínútu en hin sextán ára gamla Tomine Enger gulltryggði sigur Vålerenga með þriðja markinu níu mínútum fyrir leikslok. Markið kom með skalla eftir stoðsendingu frá Sædísi sem var því bæði með mark og stoðsendingu í dag.

Sædís Rún er komin með þrjú mörk og sex stoðsendingar á þessu tímabili en þetta er hennar fyrsta tímabil sem atvinnumaður.

Lilleström gerði á sama tíma 1-1 jafntefli við Åsane.

Ásdís Karen Halldórsdóttir lagði upp jöfnunarmark Lilleström fyrir liðsfélaga sinn Mille Christensen.

Selma Sól Magnusdóttir og félegar hennar í Rosenborg töpuðu 3-1 á móti Brann. Selma var í byrjunarliðinu en fór af velli á 82. mínútu.

Lilleström hoppaði upp fyrir Rosenborg og upp í þriðja sæti eftir þessi úrslit í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×