Fótbolti

Hlín í keppni við sjálfa sig um besta markið

Sindri Sverrisson skrifar
Hlín Eiríksdóttir í leik gegn Ólympíumeisturum Bandaríkjanna á dögunum.
Hlín Eiríksdóttir í leik gegn Ólympíumeisturum Bandaríkjanna á dögunum. Getty/Michael Wade

Landsliðskonan Hlín Eiríksdóttir átti frábært tímabil með Kristianstad í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í ár. Tvö af mörkum hennar eru tilnefnd sem besta mark ársins.

Hlín var einu marki frá því að verða markahæst í deildinni en hún endaði með 15 mörk, eftir að hafa gert tvö mörk í 5-0 útisigri gegn Trelleborg um helgina, í lokaumferðinni. Aðeins Momoko Tanikawa úr meistaraliði Rosengård skoraði meira eða 16 mörk, en Hlín og Cathinka Tandberg úr Hammarby komu næstar.

Sportbladet er með könnun í dag, fyrir lokahóf deildarinnar á fimmtudaginn, vegna vals á besta marki ársins. Hægt er að kjósa í gegnum Instagram.

Tvö marka Hlínar eru tilnefnd og hægt er að sjá þau hér að neðan, sem og mark sem Tuva Ölvestad skoraði og er einnig tilnefnt.

Hlín, sem er 24 ára, var að ljúka sinni fjórðu leiktíð í Svíþjóð en hún lék fyrstu tvö árin með Piteå áður en hún skipti yfir til Kristianstad. Hún hefur nú þrjú tímabil í röð skorað meira en tíu mörk í deildinni, eða 11 mörk árin 2022 og 2023 og svo 15 mörk í ár.

Nú þegar leiktíðinni er lokið hjá Kristianstad verður næsti leikur Hlínar væntanlega 2. desember á Spáni, þegar Ísland mætir Danmörku í vináttulandsleik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×