Tíu dagar eru liðnir frá síðasta formlega sáttafundi hjá Ríkissáttasemjara en samninganefndirnar hafa þó unnið að lausn deilunnar hver í sínu horni. Í dag hefur sáttasemjari boðað fulltrúa samninganefndanna á sérstakan vinnufund þar sem næstu skref verða ákvörðuð en þetta verður þó ekki formlegur sáttafundur. Magnús Þór Jónsson, formaður KÍ, segir að enn beri mikið á milli.
„En ég svo sem segi það enn en þetta er fyrst og fremst umræða um aðferðafræði; hvernig við getum fjárfest í kennurum og uppfyllt þetta samkomulag frá 2016. Það býður upp á að það er ákveðin vinna í kringum útfærslu þess samkomulags sem er ákveðið flækjustig en að sama skapi hef ég sagt það líka að þegar við náum að setjast niður og komumst yfir þann skafl þá held ég að við getum leyst málin hratt og örugglega.“
Á dögunum hafa foreldrafélög birt yfirlýsingar vegna verkfallsins, nú síðast foreldrafélag Menntaskólans í Reykjavík þar sem skýrt er tekið fram að félagið skilji og virði kröfur kennara en gagnrýnir hvernig verkfallsvopninu sé beitt, það bitni einvörðungu á hluta nemenda. Kennarar í MR leggja niður störf á mánudaginn kemur og verður tíundi skólinn á landinu sem verkfallið nær til.
„Aðgerðir eru neyðarbrauð og aðgerðir eru aldrei settar í gang af neinni léttúð vegna þess að við þekjum það of vel, kennarar, í gegnum tíðina að aðgerðir hafa áhrif á það fólk sem lendir í því að skólarnir þeirra fara í verkföll.“
Skólarnir séu mikilvægar stofnanir.
„Verandi með þetta stóra félag, alla 12 þúsund kennara í leik-, grunn-, framhalds- og tónlistarskólum í kjaradeilu þá var þetta leiðin okkar núna, að aðgerðirnar myndu að minnsta kosti beinast að afmörkuðum þáttum eða afmörkuðum skólum og það var hugmynd okkar að það kæmi ekki til aðgerða. Það myndi búa til meiri fókus í viðræðunum að boða til aðgerða en því miður hefur komið til aðgerða núna og við höfum bara verið allt frá því þær fóru í gang verið að leggja okkur fram um það að leysa deiluna sem fyrst.“