Sport

Alls­ber kona truflaði úr­slita­leikinn

Sindri Sverrisson skrifar
Konan gekk allsber um völlinn en leikur gat svo hafist að nýju eftir að hún gekk í fang lögreglumanna sem fylgdu henni í burtu.
Konan gekk allsber um völlinn en leikur gat svo hafist að nýju eftir að hún gekk í fang lögreglumanna sem fylgdu henni í burtu. Twitter/Getty

Strípalingur olli truflun á úrslitaleik í Kanada í fyrradag, þegar Toronto Argonauts og Winnipeg Blue Bombers mættust í amerískum fótbolta.

Um er að ræða einn stærsta íþróttaviðburð í kanadísku sjónvarpi hvert ár og voru 52.000 manns á leiknum, sem kallas Grey Cup. Þar á meðal voru Harry Bretaprins og meðlimir Jonas Brothers.

Harry Bretaprins var á meðal viðstaddra á vellinum og mætti í sjónvarpsviðtal, en Grey Cup er einn vinsælasti íþróttaviðburður hvers árs í kanadísku sjónvarpi.Getty/Rich Lam

Það voru því mörg vitni að því þegar dökkhærð kona hljóp allsber inn á völlinn. Hún var reyndar í skóm en hélt á dökkri kápu.

Á einum tímapunkti datt hún niður og missti frá sér kápuna, en stóð svo upp og veifaði til áhorfenda.

Hlé var á leiknum þegar þetta gerðist og biðu leikmenn líkt og aðrir eftir því að konan lyki sér af, án þess að nein læti yrðu. Þess í stað fékk konan að spígspora um völlinn áður en að hún gekk afslöppuð til tveggja lögreglumanna sem að fylgdu henni í rólegheitum af vellinum.

Áhorfendur á vellinum fögnuðu margir hverjir þegar konan kom fyrst inn á völlinn og sumir bauluðu svo þegar hún yfirgaf svæðið.

Leikurinn kláraðist svo og fögnuðu Argonauts öruggum sigri, 41-24.

Leikmenn Toronto Argonauts fögnuðu meistaratitlinum.Getty/Rich Lam



Fleiri fréttir

Sjá meira


×