Erlent

Mafíu­foringi sækist eftir þing­sæti í Dyflinni

Kjartan Kjartansson skrifar
Kosningaauglýsing Gerards Hutch, leiðtoga Hutch-glæpasamtakanna, í Dyflinni á Írlandi. „Við þurfum breytingar og ég er ykkar maður,“ segir í henni.
Kosningaauglýsing Gerards Hutch, leiðtoga Hutch-glæpasamtakanna, í Dyflinni á Írlandi. „Við þurfum breytingar og ég er ykkar maður,“ segir í henni. Vísir/Getty

Höfuðpaur skipulagðra glæpasamtaka er á meðal þrettán frambjóðenda sem bítast um fjögur sæti miðborgar Dyflinnar á írska þinginu. Hann var nýlega sýknaður af aðild að morði sem hratt af stað gengjastríði árið 2016.

Pascal Donohoe, ráðherra opinberra útgjalda í ríkisstjórn Fine Gael, og Mary Lou McDonald, leiðtogi stærsta stjórnarandstöðuflokksins Sinn Fein keppast um hylli kjósenda í Dyflinni fyrir kosningar sem fara fram 29. nóvember. Á kjörseðlinum með þeim er Gerard „munkurinn“ Hutch sem er talinn höfuðpaur Hutch-glæpasamtakanna sem stundar meðal annars fíkniefnasölu.

Hutch var í fyrra sýknaður af aðild að morði á Regency-hótelinu í Dyflinni árið 2016. Gengið var sagt hafa skipulagt árás sex manna á liðsmann Kinehan-glæpagengisins sem var skotinn til bana við vigtun fyrir hnefaleikakeppni. Átján manns voru myrtir til viðbótar í kjölfar morðsins á hótelinu, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Glæpaforinginn sagði dagblaðinu Sunday World í gær að hann byði sig fram til þess að einhver talaði máli uppeldishverfis hans.

„Við eigum þingmenn þessa stundina en engan málsvara, það er það sem ég heyri á götunum frá fólki og það hefur beðið mig um að fara fram,“ sagði Hutch.

Mótframbjóðendur Hutch gefa lítið fyrir skyndilegan áhuga hans á stjórnmálum. Gerry Gannon, þingmaður Sósíaldemókrata, benti á að að Hutch hefði búið á Kanaríeyjum og velmegandi úthverfi Dyflinnar undanfarin ár.

„Þetta samfélag glímir við áfall sem nær kynslóðir aftur í tímann. Það verður ekki leyst með fólki sem þykist ætla að verða einhvers konar bjargvættur,“ sagði Gannon.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×