Íslenska liðið var tveimur mörkum undir þegar um 45 sekúndur voru eftir en Katrín Anna Ásmundsdóttir náði þá að minnka muninn í eitt mark.
Svisslendingar, vel studdir af heimafólki í Möhlin, fóru svo í sókn sem endaði með því að Elín Jóna Þorsteinsdóttir varði skot af línunni. Íslenska liðið hafði þá enn um tólf sekúndur til að fara fram og ná jöfnunarmarki.
Ýmsir héldu að það hefði tekist þegar Thea Imani Sturludóttir skoraði, og eins og myndin hér að ofan sýnir var boltinn kominn í netið áður en leiktíminn rann út í vefútsendingu svissneska handboltasambandsins. Markið má líka sjá í upptökunni hér að neðan.
Hins vegar virðist tíminn í útsendingunni hafa verið einhverjum sekúndubrotum á undan klukkunni á vellinum, og í útsendingunni heyrist lokaflautið rétt áður en að boltinn lendir í markinu, þó að enn standi þá 59:59 á klukkunni í útsendingunni.
Vissulega var aðeins um vináttulandsleik að ræða, þann fyrri af tveimur við Sviss áður en alvaran tekur við á EM næsta föstudag, en leikmenn íslenska liðsins voru þó vonsviknir þegar dómararnir dæmdu markið af.
Íslenska liðið var þá búið að fagna lítillega því að hafa jafnað metin, en leikmenn beggja liða greinilega óvissir um hvort markið fengi að standa. Eftir að dómarar leiksins höfðu ráðfært sig við sitt aðstoðarfólk á ritaraborðinu var niðurstaðan sú að mark Theu fengi ekki að standa og Svisslendingar stigu sigurdans.
Ísland fær annað tækifæri á morgun til að leggja Sviss að velli en fyrsti leikur á EM er svo við Hollendinga næsta föstudag.