Spil sem fær fólk til að tala saman
Alias er spilað í liðum og geta margir verið saman í liði. Einn úr því liði sem á að gera, dregur spjald með orðum og verður að útskýra fyrir liðsfélögum sínum hvaða orð um ræðir án þess að nefna orðið sjálft. Hvað nærðu að útskýra mörg orð áður en tíminn er liðinn?

Hægt er að gefa allskonar vísbendingar til dæmis með því að nota andheiti eða samheiti orðsins og nú reynir hressilega á orðaforðann og samskiptahæfileika. Notum við til dæmis sama orðaforða til að útskýra fyrir ömmu og afa og ef litlu systkini okkar eru með okkur í liði? Hvað ef amma dregur spjaldið og notar orð eins og þjóhnappar eða hundslappadrífa til að útskýra? Spilið er stórskemmtilegt og tengir kynslóðir í fjölskylduboðunum á bæði fyndinn og fræðandi hátt.
Fyrir hversu marga - 4+ spilarar
Hvaða tíma tekur spilið - 60+ mínútur
Aldursbil - 10+ ára
Feluleikur fyrir yngsta spilafólkið

Feluleikur í frumskóginum er skemmtileg þraut fyrir yngsta spilafólkið. Dýrin í frumskóginum hafa farið í feluleik og falið svo rækilega að það þarf glögga krakka til að finna þau öll og koma þeim aftur heim til sín. Spilið er sniðugur samstarfsleikur og tilvalinn til að hjálpa börnunum að þróa leitarhæfni sína á einkar skemmtilegan máta. Spilið skapar notalega samverustund og er frábær leið til að leggja frá sér símann og spjaldtölvurnar.
Fyrir hversu marga - 2-4 spilarar
Hvaða tíma tekur spilið - 15+ mínútur
Aldursbil - 3+ ára