Brian Thompson, forstjóri UnitedHealthcare, var skotinn út á götu í New York í síðustu viku og myndband af árásinni, sem fangað var úr öryggismyndavél, bendir til þess að morðginn hafi beðið sérstaklega eftir Thompson.
Auk þess að ekki sé búið að bera kennsl á manninn, liggur ekki heldur fyrir hvert tilefni morðsins er. Hann hafði þó skrifað á skotin sem hann notaði til morðsins.
Sjá einnig: Skrifaði á skothylki sem urðu eftir
Launmorðinginn flúði af vettvangi og er talinn hafa yfirgefið New York um borð í rútu.
Tvær myndir af manninum til viðbótar voru birtar í gær en önnur þeirra sýnir grímuklæddan morðingjann sitja í leigubíl. Lögreglan segir hann hafa tekið leigubílinn um fimmtán mínútum eftir að hann skaut Thompson og var honum keyrt á rútumiðstöð, samkvæmt frétt New York Times.
Rannsakendur telja morðingjann hafa verið í New York í tíu daga og kom hann til borgarinnar með rútu frá Atlanta í Georgíu þann 24. nóvember. Samkvæmt AP fréttaveitunni notaði hann fölsk skilríki og greiddi fyrir vörur og þjónustu með reiðufé.
Ferðir hans um New York hafa verið kortlagðar með upptökum úr öryggisvélum og var hann yfirleitt með grímu fyrir andliti sínu. Hann var með tveimur öðrum í herbergi á farfuglaheimili í borginni og sáu þeir aldrei framan í hann.
Hann tók einu sinni af sér grímuna, svo vitað sé, þegar hann var að daðra við afgreiðslukonu á gistiheimilinu. Þær myndir af honum hafa verið í dreifingu.
Rannsakendur telja sig einnig hafa náð fingrafari hans af kaffibolla sem hann keypti á Starbucks nærri staðnum þar sem hann skaut Thompson til bana og hafa lífsýni sem talin eru vera úr manninum verið send til rannsóknar. Ekki liggur fyrir hvort þetta hafi hjálpað lögreglu.