Til Mangione sást á McDonalds hamborgarastað í Pennsylvaníu í gær. Gestur á McDonalds, sem lýst hefur verið sem öldruðum manni, sá Mangione á skyndibitastaðnum og fannst hann líkjast manninum á myndum sem höfðu verið birtar af lögreglunni í New York.
Lögregluþjónar handtóku Mangione skömmu síðar. Þá var hann með byssu, sem talið er að hafi verið þrívíddarprentuð, hljóðdeyfi, grímu líka þeirri sem byssumaðurinn notaði, fölsuð skilríki og einnig handskrifaða yfirlýsingu þar sem hann virðist útskýra hvað honum gekk til þegar hann myrti forstjórann.
Í fyrstu var hann ákærður fyrir vopnalagabrot, skjalafals og önnur brot í Pennsylvaníu en í nótt var hann svo einnig ákærður fyrir morð í New York. AP fréttaveitan segir að líklega verði honum á endanum framvísað til New York.
Í dómskjölum kemur fram að þegar lögregluþjónar gengu að honum á skyndibitastaðnum sat hann með grímu og var að skoða fartölvu. Hann sýndi lögregluþjónum fölsuð skilríki en þegar þeir spurðu hann hvort að hann hefði verið í New York á dögunum þagnaði hann, samkvæmt lögregluþjónum, og byrjaði að nötra.
Annar lögregluþjónanna sem handtók hann sagði að um leið og þeir báðu hann um að taka af sér grímuna hafi þeir verið fullvissir um að hann væri maðurinn sem leitað var að.
Þá segir heimildarmaður AP að í yfirlýsingunni sem hann fannst með hafi hann skrifað skilaboð til Alríkislögreglu Bandaríkjanna.
„Til að spara ykkur langvarandi rannsókn, skal ég segja það hreint út að ég vann ekki með neinum,“ skrifaði Mangione í yfirlýsinguna.
Þar stendur einnig að hann biðjist afsökunar ef hann hafi valdið einherjum tilfinningalegum skaða en hann hafi ekki komist hjá því að grípa til aðgerða.
„Hreint út sagt, eiga þessi sníkjudýr þetta skilið.“