Það kom fyrst fram í hlaðvarpsþættinum Dr. Football að Arnar Grétarsson, sem var sagt upp störfum hjá Val á síðasta tímabili, væri einn þeirra þjálfara sem forráðamenn danska félagsins Kolding væru að íhuga í þjálfarastöðuna.
Danskir miðlar hafa tekið við sér og er sagt frá því á Bold.dk að Arnar sé einn þeirra sem búinn er að fara í tvö viðtöl hjá Kolding.
Þá segist Bold hafa heimildir fyrir því að svo gæti farið að Eiður Smári Guðjohnsen, fyrrum atvinnu- og landsliðsmaður í knattspyrnu sem og fyrrverandi landsliðsþjálfari íslenska landsliðsins, yrði hluti af þjálfarateymi Arnars hjá Kolding.
Eiður sjálfur hafi hingað til ekki verið hluti af viðræðum Arnars við Kolding en að félagið haldi nú áfram viðræðum sínum við þá þjálfara sem samtalið sé hafið við.
Kolding er sem stendur í 7.sæti fyrstu deildar Danmerkur.