Laugardalsvöllur er eini völlurinn á Íslandi sem uppfyllt hefur kröfur UEFA um flóðlýsingu, vegna sjónvarpsútsendinga frá keppnum á borð við Sambandsdeildina. Fleiru er ábótavant á Víkingsvelli og því hafa Víkingar neyðst til að spila skömmu eftir hádegi, á Kópavogsvelli, eins og í 2-1 tapinu gegn Djurgården í gær.
The Sun segir í ónákvæmri Facebook-færslu sinni, fyrir 3,9 milljónir fylgjenda, að engin flóðljós séu á Kópavogsvelli og því neyðist Víkingar til að spila heimaleiki sína snemma. Með fylgir skellihlæjandi broskall. Spaugsamir fylgjendur miðilsins velta því svo meðal annars fyrir sér í athugasemdum hvort að norðurljósin dugi ekki til þess að veita birtu á kvöldin á Íslandi.

The Sun birtir með færslu sinni gamlar myndir af Kópavogsvelli og það er auðvitað ekki rétt hjá miðlinum að engin flóðljós séu á vellinum. Þau eru hins vegar, vegna ákvörðunar bæjaryfirvalda í Kópavogi á sínum tíma, ekki nógu sterk til að uppfylla kröfur UEFA.
Breska blaðið nuddar Víkingum svo upp úr því að þrátt fyrir að spila á óvenjulegum tíma þá hafi það ekki hjálpað liðinu því það hafi tapað gegn Djurgården.
Tapið breytir ekki þeirri staðreynd að Víkingar hafa náð í sex stig á Kópavogsvelli í keppninni, og sjö stig alls, og eru yfirgnæfandi líkur á að þeir komist áfram í umspil í lok febrúar um sæti í 16-liða úrslitum. Það gæti tekist jafnvel þó að liðið tapi gegn LASK í Austurríki næsta fimmtudag, þegar deildarkeppninni lýkur.
Komist Víkingar áfram gætu vallarmál á Íslandi fengið enn meiri athygli í erlendum fjölmiðlum, eins og The Sun. Á meðal liða sem komist gætu áfram eru bresku liðin Chelsea, sem reyndar er öruggt í 16-liða úrslit, Hearts og The New Saints.