Sigur Íslands á Úkraínu á EM var afar dýrmætur því með því að enda í 16. sæti mótsins komst Ísland í efri styrkleikaflokk fyrir dráttinn í HM-umspilið í dag. Þannig sneiddu stelpurnar okkar framhjá mörgum afar öflugum þjóðum en mæta í staðinn þjóð úr flokki 2.
Nú er komið í ljós að sú þjóð verður Ísrael, og fara leikirnir fram í apríl. Áætlað er að fyrri leikurinn sé heimaleikur Íslands en sá seinni heimaleikur Ísraels, en vegna stríðsreksturs hafa Ísraelar ekki mátt spila á heimavelli síðustu misseri og því óvíst hvar heimaleikur Ísraela verður spilaður.
HM-umspilið:
Ísland - Ísrael
Sviss - Slóvakía
Ítalía - Rúmenía
Pólland - Norður-Makedónía
Svíþjóð - Kósovó
Slóvenía - Serbía
Portúgal - Svartfjallaland
Færeyjar - Litháen
Tékkland - Úkraína
Króatía - Spánn
Austurríki - Tyrkland
Ísrael er með í HM-umspilinu eftir að hafa unnið forkeppnisriðil sem í voru einnig Eistland og Finnland. Ísrael vann báðar þjóðir, 29-22 gegn Eistlandi og 26-18 gegn Finnlandi. Leikið var í Finnlandi.
Ísland mun því þurfa að slá út Ísrael til að komast á sitt þriðja stórmót í röð, eftir að hafa fengið boðssæti á HM fyrir ári síðan og svo verið með á EM í ár. Óvíst er hvar heimaleikur Ísraels fer fram en í undankeppni EM lék liðið á heimavöllum mótherja sinna.
Beina útsendingu EHF frá fundinum í dag mátti sjá hér á Vísi. Eins og fyrr segir var Ísland í efri styrkleikaflokki fyrir dráttinn en flokkana má sjá hér að neðan.
Styrkleikaflokkur 1: Ísland, Svíþjóð, Pólland, Svartfjallaland, Rúmenía, Slóvenía, Sviss, Spánn, Austurríki, Tékkland og Færeyjar.
Styrkleikaflokkur 2: Litháen, Kósovó, Ítalía, Ísrael, Slóvakía, Úkraína, Portúgal, Serbía, Tyrkland, Króatía og Norður Makedonía.