Norska ríkisútvarpið greinir frá því að snjór, frost og heiðskír himinn hafi einkennt daginn og brúðkaupsveislan svo tekið við á Grand Hotel. Einungis nokkrir dagar séu frá því að hjónin gáfu út að þau ætluðu að gifta sig um helgina og þau hafi kosið að halda upp á daginn í ró og næði.

Magnus sem er margfaldur heimsmeistari í skák fæddist í Tønsberg í suðurhluta Noregs en ólst upp í Lommedalen. Ella kemur frá Osló og á norska móður og bandarískan föður en takmarkaðar upplýsingar er að finna um líf hennar. Hún hefur nokkrum sinnum sést á skákmótum með Magnusi, nú síðast á HM í at- og hraðskák í New York í desember.

Ella lýsti því í viðtali við norsku sjónvarpstöðina TV 2 í maí að hún kjósi oft að láta lítið á sér bera þrátt fyrir að hún geti verið virk í félagslífi. Stundum sé erfitt að vera með Magnusi á skákmótum en hún kjósi að gera það samt þar sem hún vilji styðja hann og vera honum góð kærasta.
Brúðkaupið fór fram nokkrum dögum eftir viðburðaríkt heimsmeistaramót í skák þar sem Magnus var sektaður fyrir að brjóta reglur Alþjóðaskáksambandsins (FIDE) með því að mæta í gallabuxum til keppni.
Hann gagnrýndi ákvörðunina harðlega og dró sig úr mótinu. Hann skipti síðar um skoðun og sneri aftur til keppni en nú í öðrum gallabuxum. Endaði hann á því að deila heimsmeistaratitlinum í hraðskák árið 2024 með Rússanum Jan Nepomniatsjtsjí eftir hafa gert þrjú jafntefli í bráðabana. Þessi niðurstaða mótsins var umdeild en þetta er í fyrsta skipti sem tveir deila heimsmeistaratitlinum í skák.
Engar gallabuxur var að sjá á Magnusi fyrir utan kirkjuna í gær.
