Gleðskapurinn hófst á iðnaðarsvæði nærri flugvellinum í Ciudad Real, um 190 kílómetra suður af höfuðborginni Madrid, síðdegis á gamlársdag. Boðað var til hans á samfélagsmiðlum undir heitinu „Big fucking party“. Þúsundir manna dilluðu sér þar við dúndrandi, og stanslausa, teknótónlist við nokkur svið sem voru sett upp þar sem plötusnúðar þeyttu skífum.
Þrátt fyrir að reifið væri skipulagt eins og tónlistarhátíð með matar- og sölutjöldum af ýmsu tagi var það haldið án leyfa og í trássi við borgaryfirvöld. Sjónvarpsstöðin Antena 3 segir að skipuleggjendurnir séu óþekktir. Gestir fengu ekki að vita staðsetninguna fyrr en á síðustu stundu í gegnum samfélagsmiðla eins og Telegram og Whatsapp.
Fjöldi lögreglumanna fylgdist með úr fjarlægð en yfirvöld kusu að skakka ekki leikinn þrátt fyrir að ómur af tónlistinni bærist allt að fimmtán kílómetra leið og gleðskapurinn stæði yfir í hátt í viku. Lögreglan segir að tíu hafi verið handteknir í tengslum við hátíðina og 65 kærur verið lagðar fram, meðal annars vegna fíkniefna og vopnaburðar. Engin alvarleg mál hafi þó komið upp.

Um fimm þúsund manns sóttu reifið þegar mest lét en hópurinn hafði þynnst töluvert undanfarna daga. Síðustu gestir byrjuðu þó ekki að tínast heim til sín fyrr en í gær, á síðasta degi jóla, að sögn spænsku fréttaveitunnar EFE. Hátíðin hafði þá staðið yfir í 150 klukkustundir samfellt.
Þetta var ekki í fyrsta skipti sem „megareifið“ var haldið. Ólöglegar tónlistarhátiðir undir sama nafni voru haldnar í Murcia og Granada síðustu tvenn áramót.