Matvæla- og veitingafélag Íslands (Matvís) stefndi veitingahúsinu Flame í Katrínartúni fyrir héraðsdómi fyrir hönd starfsmannanna sem töldu sig eiga inni vangoldin laun. Héraðsdómur Reykjaness felldi dóm í málinu á mánudag og féllst á allar kröfur Matvís, að því er segir í tilkynningu á vef félagsins.
Flame þarf að greiða starfsmönnunum þremur þrjár og hálfa milljóna króna auk dráttarvaxta samkvæmt dómnum. Staðurinn hafði áður greitt þeim 10,5 milljónir króna eftir að Matvís gekk á eigendur hans árið 2022. Alls hefur Flame því þurft að greiða starfsmönnunum fjórtán milljónir króna vegna vangoldinna launa og annarra réttinda.
Forsaga málsins er sú að Matvís fékk upplýsingar um að starfsmenn Flame hefðu ekki fengið greitt eftir kjarasamningum og lögum sumarið 2022. Starfsmenn vinnueftirlits Matvís heimsóttu staðinn og sögðust hafa upplýst um umfangsmikil brot á starfsfólki.
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi Matvís bótaskylt vegna þessarar eftirlitsheimsóknar í október. Taldi dómurinn að fulltrúar stéttarfélagsins hefðu bakað eigendum staðarins tjón með því að fá starfsfólk til þess að hætta í vinnunni jafnvel þótt talið hefði verið sannað að það fengi ekki greidd laun í samræmi við lög.
Matvís segir í tilkynningu sinni nú að Héraðsdómur Reykjaness hafi staðfest að starfsfólk Flame hafi verið í fullum rétti að ganga úr störfum sínum vegna vanefnda vinnuveitanda síns. Dómurinn sjálfur hefur enn ekki verið birtur á vefsíðu dómstólsins.