Erlent

Byssu­maður í Pizzagate-málinu skotinn til bana

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Edgar Welch er látinn eftir að hafa verið skotinn til bana af lögreglu.
Edgar Welch er látinn eftir að hafa verið skotinn til bana af lögreglu. AP

Maður sem gekk vopnaður inn á veitingastað í Washington D.C. vegna skáldaðra samsæriskenninga fyrir níu árum síðan var skotinn til bana af lögreglunni í Norður-Karólína á umferðarstoppi.

Lögreglan í Kannapolis í Norður-Karólínu greinir frá því að Edgar Maddison Welch hafi verið farþegi í bíl sem lögreglan stöðvaði á laugardagskvöld þann 4. janúar síðastliðinn.

Einn af lögregluþjónunum kannaðist við bílinn eftir að hafa séð Welch aka um á honum áður. Sami lögregluþjónn hafði handtekið Welch áður og vissi að búið væri að gefa út handtökuheimild á hendur honum vegna brots hans á skilorði.

Í tilkynningu frá lögreglunni segir að þegar lögregluþjónarnir nálguðust bílinn til að handtaka Welch hafi hann dregið fram skammbyssu og miðað henni í átt að einum lögregluþjónanna. Honum var sagt að leggja frá sér vopnið en hann neitaði að gera það og var í kjölfarið skotinn til bana af lögregluþjónunum tveimur.

Welch var fluttur með sjúkrabíl á spítala en lést af sárum sínum tveimur dögum síðar. Hvorki bílstjórinn né annar farþegi særðust í skothríðinni.

Dulmál fyrir börn sem átti að misnota

Edgar Welch vann það sér til frægðar að hafa árið 2016 farið inn á veitingastaðinn Comet Ping Pong í Washington, vopnaður AR-15-riffli, vegna Pizzagate-samsæriskenningarinnar sem gekk út á að háttsettir Demókratar héldu úti barnaníðshring á staðnum. Hann skaut þrisvar sinnum úr rifflinum en hæfði sem betur fer engan og var síðan yfirbugaður af lögreglunni

Þegar Welch réðist inn á pizzastaðinn var hann með aðra byssu á sér og svo fannst ein til viðbótar í bílnum hans. Hann var á endanum dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir árás með hættulegu vopni og ólöglegan vopnaflutning milli ríkja. Welch sagðist sjá eftir því hvernig hann tæklaði málið en taldi þó ekki ósannað að staðurinn væri tengdur barnaníðshring.

Uppruni Pizzagate-samsæriskenningarinnar er rakinn til spjallborða 4chan þar sem umræðurnar byggðu á leka tölvupósta John Pedesta og Wikileaks. Podesta hafði rætt veitingastaðinn í tölvupóstum sínum og einn notandi stakk upp á því að orð eins og ostur, pylsa og pizza væru dulmál fyrir ung börn og kynlíf.


Tengdar fréttir

Pískur sem þróaðist í hættu­legustu sam­særis­kenningu síðari tíma

QAnon-kenningin hófst sem pískur í myrkustu kimum internetsins og hefur þróast í eina umdeildustu og hættulegustu samsæriskenningu síðari tíma. Kenningin á rætur að rekja til ógnvekjandi sögusagna um barnaníðinga og djöfladýrkendur sem stjórna heiminum en afleiðingarnar urðu blóðugri en margir gátu ímyndað sér þegar fylgjendur hreyfingarinnar brutust inn í bandaríska þinghúsið þann 6. janúar 2021 í misheppnaðri tilraun til valdaráns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×