Fjöldi tilkynninga hafa borist Dýraþjónustunni vegna dauðra og veikra fugla síðustu daga. Tilfellin má hugsanlega rekja til fuglainflúensu, H5N5, sem geisað hefur að undanförnu. Deildarstjóri hjá Dýraþjónustunni sagðist í dag ekki muna eftir álíka faraldri.
Í tilkynningu á vef Reykjavíkurborgar eru borgarbúar sem verða varir við dauða eða veika fugla beðnir um að meðhöndla þá ekki heldur hafa tafarlaust samband við Dýraþjónustuna.
Þá er fólk beðið um að gefa góða lýsingu á staðsetningu fuglanna og ef mögulegt er, senda myndir. Ef fólk verður vart við fugla í vanda eða dauða fugla utan þjónustutíma Dýraþjónustunnar er það beðið um að hafa samband við Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu.
Hundaeigendur haldi hundunum frá hræunum
Þá tekur þjónustan undir ráðgjöf dýralækna og sérfræðinga MAST að halda heimilisköttum inni á meðan inflúensan gengur yfir. Hún sé bráðsmitandi og geti borist í ketti líkt og fugla.
Ef viðra þarf kettina sé mælt með að hafa þá í taumi. Þá er þeim tilmælum beint til hundaeigenda að gæta þess að hundar þeirra fari ekki í hræ af fuglum þótt engin staðfest smit yfir í hunda séu þekkt á þessum tímapunkti.