Fótbolti

Sölvi tekinn við Víkingum með Viktor og Aron til að­stoðar

Sindri Sverrisson skrifar
Sölvi Geir Ottesen var kynntur til leiks sem nýr aðalþjálfari Víkings í dag. Viktor Bjarki Arnarsson og Aron Baldvin Þórðarson verða honum til aðstoðar.
Sölvi Geir Ottesen var kynntur til leiks sem nýr aðalþjálfari Víkings í dag. Viktor Bjarki Arnarsson og Aron Baldvin Þórðarson verða honum til aðstoðar. vísir/Aron

Sölvi Geir Ottesen var í dag kynntur sem nýr aðalþjálfari Víkings í fótbolta karla. Beðið hefur verið eftir þessu frá því að ljóst varð að Arnar Gunnlaugsson hætti til að taka við íslenska landsliðinu.

Samningur Sölva gildir til næstu þriggja ára.

Viktor Bjarki Arnarsson, fyrrverandi leikmaður Víkings sem ráðinn var yfirþjálfari félagsins haustið 2023, verður aðstoðarþjálfari og Aron Baldvin Þórðarson, sem stýrt hefur 2. flokki, verður aðstoðarmaður og yfirgreinandi.

Sölvi kom inn í þjálfarateymi Arnars eftir að hafa lagt skóna á hilluna eftir tímabilið 2021, eftir að hafa orðið Íslands- og bikarmeistari með Víkingum. Hann lék síðustu ár ferilsins fyrir uppeldisfélag sitt eftir langan atvinnumannaferil í Svíþjóð, Danmörku, Rússlandi, Kína og Taílandi.

Sölvi kom inn í starfslið íslenska landsliðsins í fyrra en eins og Arnar tilkynnti á blaðamannafundi í síðustu viku mun hann ekki sinna því starfi áfram.

Sölvi er nú þegar skráður með fimm leiki sem þjálfari í Bestu deildinni, eftir að hafa leyst Arnar af í leikbönnum á síðustu tveimur tímabilum.

Hann tekur við Víkingi á vægast sagt spennandi tímum en fram undan eru leikir við gríska stórveldið Panathinaikos í umspili um sæti í 16-liða úrslitum Sambandsdeildar Evrópu. Leikirnir fara fram 12. og 19. febrúar.

Fyrsti leikur Víkinga á komandi leiktíð í Bestu-deildinni, þar sem liðið endaði í 2. sæti í fyrra líkt og í Mjólkurbikarnum, er við ÍBV í Víkinni 7. apríl. Fram að því spilar liðið áfram í Reykjavíkurmótinu og svo í Lengjubikarnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×