Viðskipti innlent

Björn Leifs­son horfir til Vest­manna­eyja

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
World Class-hjónin Björn Leifsson og Hafdís Jónsdóttir fyrir utan World Class Laugum í Laugardal.
World Class-hjónin Björn Leifsson og Hafdís Jónsdóttir fyrir utan World Class Laugum í Laugardal. Vísir/Vilhelm

Bæjarráð Vestmannaeyja hefur samþykkt beiðni forstjóra World Class um viðræður um rekstur og uppbyggingu heilsuræktar á Heimaey. Bæjarstjóri segir beiðnina sönnun þess að Vestmannaeyjar séu spennandi kostur.

Björn sendi Írisi Róbertsdóttur bréf á dögunum þar sem hann óskaði eftir fundi.

„Ég óska eftir viðræðum við ykkur um rekstur heilsuræktar við sundlaug Vestmannaeyjar. Ég hef áhuga á að fara í samstarf við bæinn um rekstur heilsuræktar, leigu á sal við sundlaugina og viðbyggingu í framhaldi,“ sagði Björn í bréfinu.

Það var tekið fyrir á fundi bæjarráðs í síðustu viku. Bæjarráð samþykkti beiðni um viðræður og fól Írisi bæjarstjóra, framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs og framkvæmdastjóra fjölskyldu- og fræðslusviðs að ræða við Björn um þeirra hugmyndir um rekstur og uppbyggingu heilsuræktar.

Björn og fjölskylda reka átján líkamsræktarstöðvar á landinu og stefna á frekari útrás. Þannig stendur fyrir dyrum bygging lúxushótels og baðlóns á Fitjum á Reykjanesi og sömuleiðis í Sjálandi í Garðabæ þar sem samnefndur veitingastaður var áður til húsa.

Hjónin Björn og Hafdís Jónsdóttir hafa þá verið með sex hundruð fermetra einbýlishús í byggingu á Arnarnesinu í Garðabæ undanfarin ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×